Frelsi ofar öllu

Í 50 ár hvíldi hrammur rússneska bjarnarins á litlu landi við Eystrasaltið. Kommúnisminn hafði haldið landinu í heljargreipum í áratugi. Framfarir voru nánast óþekkt hugtak, fjárhagur landsins var í rúst.  Árið 1991 var örlagaríkt í sögu Eistnesku þjóðarinnar er hún endurheimti frelsið.  Gjaldmiðill landsins, rússneska rúblan var nánast verðlaus. Eldsneyti hafði hækkað 10.000 falt og verðbólgan var yfir 1.000% á ári. Þjóðarframleiðslan var nánast engin og launin höfðu lækkað um 45%. Um 90% af viðskiptum þjóðarinnar var takmörkuð við Rússland. Skálmöld og upplausn ríkti í landinu. Menn biðu klukkustundum saman í biðröðum eftir skömmtunarseðlum til að fá mjólk, brauð og smjör. Allt sýndist vera vonlaust og grátt. Íbúarnir voru á barmi örvæntingar.

Nú eru breyttir tímar þar í landi. Á ferðum mínum um Eistland fyrir nokkrum árum voru engin sýnileg merki um kommúnismann. Eistnesku vinir mínir sýndu mér stoltir landið sitt, sem er í raun ekki stórt yfirferðar og ég var forvitin að vita hvernig landið hefði risið úr öskustónni á einungis 15 árum. Svarið var einfalt: "Sjálfstæði. Fjárhagslegt frelsi og frelsi í viðskiptum."

Árið 2007 var Eistlandi í 12. Sæti yfir þau lönd, sem þá nutu hvað mesta fjárhagslegs frelsis í heiminum að mati Wall Street Journal. Jafnskjótt og Eistland öðlaðist pólitískt frelsi, notaði þjóðin það frelsi til að öðlast einnig fjárhagslegt frelsi. Gerðar voru róttækar breytingar á stjórnkerfi landsins; gjaldmiðilsbreytingar, iðnfyrirtækin voru færð frá ríki til einkaaðila, eignaréttur var tryggður og gerðar voru breytingar á skattalöggjöfinni og öll viðskiptahöft voru afnumin.

Fyrsta skrefið var að taka upp eigin gjaldmiðil „kroon“, sem þeir tengdu við þýska markið með gjaldeyriskaupasamningum. Slíkir samningar gera ráð fyrir að þjóðir geta ekki prentað meiri peninga án þess að auka fyrst við gjaldeyrisforða sinn erlendis. Með því að tengjast traustum gjaldmiðli, juku Eistlendingar um leið traustið á  sínum gjaldmiðli.  Þessu fylgdu miklar og jákvæðar breytingar, verðbólgan snarlækkaði og komst undir 5% ár ári. Ríkið þurfti að draga úr útgjöldum sínum þar sem það gat ekki prentað meiri peninga. Þetta kallaði á aukinn einkarekstur á öllum sviðum.

Gerðar voru breytingar á eignaréttalögum en fyrir fall kommúnismans hafði ríkið átt um 95% af öllum fyrirtækjum í landinu. Einkavæðing er út í hött ef eignaréttur er ekki tryggður þar sem menn þurfa að hafa frelsi til að ráðstafa eignum sínum. Í stað þess að taka upp skattaþrep settu Eistar á flatan skatt á einstaklinga og fyrirtæki svo þeir aðilar sem öfluðu meira sáu hag sinn í því að fjárfesta í fyrirtækjum og starfsemi á frjálsum markaði. Án þess hefðu þeir fjármunir runnið aftur til að fjármagna aukinn ríkisrekstur, sem aftur hefði leitt til stöðnunar. Einnig var öll tvísköttun á fjármagnstekjur og lífeyri afnumin. Þetta hvatti til aukins sparnaðar og dró úr undanskotum. Það ýtti aftur undir hagvöxt og örvaði markaðinn til dáða. 
Á árunum 1992 til 1994 fjölgaði starfandi fyrirtækjum í landinu úr 2.000 í rúmlega 70.000.

Fleiri Eystrasaltsríki fylgdu þessu fordæmi. Í öllum þeim löndum, þar sem tekinn hefur verið upp flatur skattur hefur hagvöxtur aukist gífurlega.  Auki fjárstreymi leiddi til aukinna fjárfestinga í iðnaði og jók þar með landsframleiðsluna.

Árið 1992 aflétti Eistland öllum viðskiptahöftum og skóp þannig jafnræði milli erlendra og innlendra fjárfesta. Í stað þess að treysta á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AMF) og Alþjóðabankann var reynt í staðinn að laða að erlenda fárfesta og örva viðskipti við önnur lönd. Eistland varð fljótlega mesta fjárfestingaland Mið- og Austur Evrópu, sem jók mjög á tækniþekkingu og kunnáttu í iðnaði og öðrum fyrirtækjum.

Hér á landi eru menn farnir að skammast sín fyrir frelsið. Frelsinu er hallmælt á torgum. Því er skvett framan í okkur úr álpottum. Það er atað prentsvertu svo það geti læðst með veggjum í skuggunum frá galdrabrennum. Samt fórum að mörgu leyti sömu leiðir og Eistar. Hvað var þá öðruvísi hér á landi? Hvað fór úrskeiðis? Voru e.t.v. sumir frjálsari en aðrir? 

Eistlendingar eru gott dæmi um þjóð sem lyfti af sér oki hafta og kúgunar. Þeir höfðu langa og sára reynslu að af yfirgangi og helsi. Þeim tókst að endurreisa landið sitt og eru stoltir af því. Þeir öðluðust frelsi.

Þú getur rætt við nánast hvaða Eistlending sem er. Þeir segja allir það sama við stolti: „Okkur tókst að losna við kommúnismann. Við erum frjáls þjóð“!


Eftirmáli:
Þann 1. maí 2004 gengu Eistar í ESB. Nú rúmum fjórum árum síðar sækir allt í sama farið og áður, kreppa ríkir og verðbólgan eykst hratt. Hvað er nú til ráða?

  tallin.jpg

Frá Tallin

 

 

Ref. byggt að hluta á: Emily Rose, (Bethel College): "What Causes Prosperity: The Estonian Example."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband