Nýsköpun er nauðsyn II

Margar þjóðir líta nú til litla Íslands og menn óttast mjög að sömu örlög bíði þeirra og gengið hafa yfir okkur. Ísland hefur fengið mjög mikla umfjöllun í erlendum fjölmiðlum undanfarnar vikur.
Það má ekki gleyma því að minni flestra er mjög gott, en stutt. Öll umfjöllun getur því reynst góð umfjöllun, þegar til lengri tíma er litið. Ísland hefur því í raun fengið meiri auglýsingu en nokkru sinni fyrr.
Það er mjög áríðandi að Ísland rísi nú hratt upp úr öskustónni og að við sýnum umheiminum að við getum snúið við óheillaþróun undanfarinna vikna með skjótum og sannfærandi hætti. Slík viðreisn gæti reynst gott módel fyrir aðrar þjóðir, sem eiga eftir að lenda í svipuðum kröggum.
Það er því mjög mikilvægt að kryfja vandamálið til mergjar og benda á lausnir og hvernig koma má í veg fyrir að atburðarrásin geti endurtekið sig. Þjóðin er föst í klisjum og margir virðast halda að orsakir vandans sé að leita til eins einstaklings eða jafnvel einnar setningar sama einstaklings. Þetta er afar óskynsamlegt, hver svo sem á í hlut.

Þjóðin þarf nú að flagga því sem flaggað verður. Nú ber brýna nauðsyn til þess að finna, greina og styrkja þau fyrirtæki og atvinnutækifæri hér á landi, sem þegar eru fyrir hendi og sem eru þess megnug að skapa atvinnu og afla gjaldeyris. Við þurfum einnig að finna strax og styrkja þau sprotafyrirtæki og hugmyndir, sem eru vænlegar til hins sama. Nú þarf að kynna okkar fyrirtæki og vörur erlendis. Nú þekkja allir "Iceland". Það er því afar mikilvægt að koma nú með jákvæðan áróður og kynningar, sem tengjast með einhverjum hætti landinu okkar. Annað væri fásinna! Við megum alls ekki draga okkur inn í skelina eins og skömmustulegir krakkar. 

Í landinu eru til nákvæmar áætlanir varðandi viðbrögð við náttúruhamförum svo sem jarðskjálftum og eldgosum. Nú ganga yfir landið fjárhaglegar hamfarir, sem fáir gátu séð fyrir. Það þarf því að gera nákvæma fjárhagslega viðlagaáætlun fyrir landið. Tryggja þarf grunnþarfir okkar, fæði, húsaskjól og heilbrigði. Einnig þarf að tryggja atvinnu og félagslegt öryggi. Ef með þarf er nausynlegt að setja á ný neyðarlög, jafnvel til að þjóðnýta þau fyrirtæki, sem veita mikilvæga grunnþjónustu.
Íslendingar búa við eitt besta heilbrigðiskerfi, sem fyrirfinnst í heiminum. Þetta heilbrigðiskerfi er eitt af grunnstoðum heilbrigðis og velsældar hér á landi. Það er því afar mikilvægt að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins og tryggja að ekki verði neinir hnökrar í starfsemi þess.

Við megum ekki í hita leiksins alveg gleyma gildi einstaklingsins og framtaks hans.  Mikilvægt er þó að hafa í huga, að við uppbyggingu landsins duga alls ekki gjörðir eins manns, hvað þá einungis ein setning.
Það þurfti sameiginlegt átak fjölmargra aðila til að koma okkur í vandann. Til að vinna okkur út úr vandamálunum þarf einnig sameiginlegt átak. Nú þarf að koma til sameiginlegt átak allrar þjóðarinnar.

Spyrnan er best frá botninum 

Áfram Ísland! 

www.elinorainga.com

iceland_land.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband