Nýsköpun er nauðsyn I

Að hjakka í sama farinu færir okkur ekki úr stað. Á íslandi býr dugmikil þjóð, sem er stútfull af góðum hugmyndum. En það er ekki nóg að fá góðar hugmyndir.  Það þarf að finna hugmyndunum réttan farveg. Og ekki er verra að hafa góðar og traustar fyrirmyndir.  

Í lok seinni heimstyrjaldarinnar þurftu Japanir að taka á honum stóra sínum, er þeir stóðu uppi sem gjörsigruð og niðurlægð þjóð. Í Japan er fátt um náttúruleg auðævi önnur en mannauðinn. Japanir höfðu vit á því á sínum tíma að nýta mannauð sinn til fulls í endurreisn og enduruppbyggingu landsins. Þeir hvöttu til nýsköpunar og hugmyndasmíði. Þeir stórefldu tæknimenntun og bættu aðstöðu iðnaðar, smáfyrirtækja og hugvitsmanna. Mikil og jákvæð hugarfarsbreyting átti sér stað í Japan á þessum árum. Á einfaldan og skjótan hátt tókst þeim á örskömmum tíma að rífa þjóðina upp úr örbyrgð og ládeyðu upp í það að verða eitt tæknivæddasta og ríkasta þjóðfélag í heimi.

Hvaða lærdóm getum við Íslendingar dregið af þessu? Jú, núna þurfum við sárlega hugarfarsbreytingu. Við getum það sem við viljum. Við höfum náttúruauðlindir, mikla reynslu, góða og víðtæka menntun og mikinn mannauð. Allt þetta getum við nýtt á skynsaman og uppbyggilegan hátt ef vilji, dugnaður og þor er fyrir hendi.

Við þurfum strax í dag að skapa farveg fyrir allar þær hugmyndir, sem geta komið þjóðinni að gagni.  Við þurfum að skapa betri grundvöll fyrir sprotafyrirtæki og smáiðnað, einkum fyrirtæki sem geta aflað gjaldeyris fyrir þjóðina. Góðar og nýtilegar hugmyndir geta sprottið upp hvar sem er, óháð menntun, aldri, kyni, búsetu eða uppruna. Jafnvel hjá þér!

Nýsköpunar er nú þörf á öllum sviðum!   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband