Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Frábærar fyrirmyndir, en engin umfjöllun í fjölmiðlum

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta eftir reynslu mína við að koma á framfæri í fjölmiðla, frábærum árangri kvenna í nýsköpun á nýlegri GlobalWiin viðurkenningarhátíð sem haldin var 6.til 7.september síðastliðinn. 

Hér er hægt að sjá myndbönd frá hátíðinni: 

https://www.youtube.com/@Globalwiin

Í nýlegri skýrslu Framvís, um jafnrétti í vísifjármögnun, kemur fram að konur fá 7% af fjármagninu og er það aðeins hærra en í Evrópu en þar fá konur um 2% af fjármagni því sem fer í nýsköpun, árið 2022.

Þetta eru skelfilegar tölur sem hlýtur að vekja fólk til umhugsunar.

Kannski er hluti vandans skortur á sýnileika, skortur á umfjöllun kvenna í nýsköpun í fjölmiðlum, skortur á fyrirmyndum (af því sýnileiki fæst ekki í fjölmiðlum), eða kannski fordómar. Þykja kannski hugmyndir ungra tölvudrengja merkilegri en eldri kvenna?

Mér finnst það fréttnæmt þegar 11 verkefni íslenskra kvenna í nýsköpun eru tilnefnd til alþjóðlegrar GlobalWiin viðurkenningar, og að 6 þeirra eru meðal aðalverðlauna. Það er fréttnæmt!

Alls voru 51 verkefni frá 23 löndum tilnefnt til viðurkenningar í ár. Flest þeirra verkefna voru til sýnis í Norðurljósasal Hörpu 6.sept. síðastliðinn.

Yngsti þátttakandinn kom frá Sameinuðu furstudæmunum (UAE), hin 16 ára gamla Maraim Hassan Rashid Al-Ghafri og elst var 82 ára frá Íslandi, Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælafræðingur, sem hlaut eitt af aðalverðlaununum fyrir verkefnið sitt Hyndla, sem snýst um mikla nýtingarmöguleika þara https://www.hyndla.is 

Uppfinningakona ársins 2023 er Lahou Keita frá Frakklandi, en hennar vara er nýr “svartur kassi” í flugi, sem byggist á að allar upplýsingar eru á jörðu niðri ekki í flugvélunum sjálfum “The ground data black box” og er tækni hennar nú þegar komin í notkun. Nánar er hægt að lesa um þetta á https://www.keitas.com og ættu kannski forsvarsmenn Icelandair og Play að kynna sér þennan merkilega möguleika, þó það komi frá hörundsdökkri konu, sem er flugfræðingur, en ekki ungum tölvudreng nýskriðnum úr háskóla.

Fulltrúi WIPO, alþjóðlegu hugverkastofunnar kom til Íslands og afhenti íslenskri konu, Höllu Jónsdóttur viðurkenningu fyrir verkefnið Optitog og Halla fékk einnig eitt af aðalverðlaunum GlobalWiin. Optitog er teymisverkefni og er merkileg þróun á veiðarfæri sem hlífir sjávarbotninum og hægt að kynna sér betur á https://www.optitog.com 

Fulltrúi frá IPAN (Intellectual property awareness network) kom einnig til Íslands og veitti íslenskri konu, Unni Valdísi Kristjánsdóttur, eitt af aðalverðlaunum GlobalWiin fyrir Flothettu ásamt viðtalstíma varðandi hugverkaréttindi og mikilvægi þeirra. Nánar má lesa um verkefni hennar á https://www.flothetta.is

Fulltrúi IFIA (International federation of Inventors associations) kom líka til Íslands og veitti japanskri konu, Yuko Hiraga, viðurkenningu fyrir verkefni sem gerir steypu vatnsþéttari. Hægt er að kynna sér nánar hennar nýsköpun á https://www.e-hiraga.com Ég skora á BM Vallá og Steypustöðina að kynna sér þessa nýjung. Einnig veitti fulltrúi IFIA Dr. Bolu Olabisi, frá UK, stofnanda og stjórnanda GlobalWiin og Maila Hakala frá Finnlandi heiðursviðurkenningu IFIA, fyrir þeirra mikilvægu störf í þágu kvenna í nýsköpun.

Thora H Arnarsdóttir fékk eitt af aðalverðlaunum Globalwiin fyrir rannsóknir og þróunarvinnu við Biodesign eða lífhönnun þar sem hún vinnur við að rannsaka nýjar framleiðslu aðferðir í hönnun sem sameina lifandi ferla hjá örverum í að myndi ýmis efni í hönnuarferlum, sérstaklega lífsteinefnismyndun ´biomineralisation´ til að mynda kalk kristalla sem geta bundið saman smáar agnir af sandi sem harðna og geta búið til flísar eða múrsteina sem eru þá myndaðir án viðbótarorku á náttúrulegan hátt. Nánar má kynna sér þetta verkefni á htpps://www.thoraha.com 

Grace Aching fékk eitt af aðalverðlaunum GlobalWiin fyrir hönnun sína og sjálfbærni hugsun, slow fashion. Nánar má kynna sér það á https://www.gracelandic.com Grace er upprunalega frá Ghana og hefur búið á Íslandi í mörg ár.

Andri Heiðar Kristinsson fékk ein af aðalverðlaunum GlobalWiin, sem kallast "Male champion" fyrir að stofna Innovit á sínum tíma sem nú nefnist Klak, og Gulleggið, sem hefur stuðlað að því að efla konur í nýsköpun í háskólaumhverfinu.

Sunna Ólafsdóttir Wallevik og Sigrún Nanna Karlsdóttir fengu líka eitt af aðalverðlaunum GlobalWiin fyrir þeirra rannsóknar- og þróunarvinnu í tengslum við endurvinnslu á hráefnum eins og steypu og gleri og má lesa um þeirra nýsköpun á https://www.gerosion.com Við getum verið stolt yfir þessum ungu vísindakonum og þeirra árangri.

Harpa Magnúsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið sitt Hoobla Ef þig vantar sérfræðing í verkefni þá hefur þú samband við htpps://www.hoobla.is

Linda Björg Árnadóttir hlaut viðurkenningu fyrir hönnun sína https://www.scintilla.is

Hafrún Þorvaldsdóttir fékk viðurkenningu fyrir app verkefnið sitt E1, hleðslulausn fyrir rafbíla htpps://www.e1.is

Vilborg Einarsdóttir fékk GlobalWiin viðurkenningu í annað sinn. Í fyrra skiptið fyrir Mentor verkefnið sitt árið 2011 og núna fyrir sjálfbærni verkefnið sitt sem heitir Bravo Earth htpps://www.bravo.earth

Linda Fanney Valgeirsdóttir og Rúnar Unnþórsson fengu viðurkenningu fyrir verkefni innan Alor, að gefa rafhlöðum framhaldslíf htpps://www.alor.is Þau hafa fengið viðtal á Vísi.

Sigríður Snævarr fyrrverandi sendiherra fékk heiðursviðurkenningu GlobalWiin. Hún er mikill frumkvöðull sjálf og hefur stuðlað að framgangi kvenna og karla í atvinnulífinu, víðs vegar um heim.

Allir þessir einstaklingar eiga skilið forsíðuviðtal í fjölmiðlum vegna sinnar nýsköpunar.

Hvernig ætlum við að auka sýnileika og árangur kvenna í nýsköpun ef fjölmiðlar þegja. Hvernig sköpum við fyrirmyndir fyrir framtíðarkynslóðir kvenna í nýsköpun þegar þær fá enga umfjöllun?

Verða ekki fjárfestar að líta í eigin barm þegar kemur að fjárfestingum í nýsköpun kvenna. Getur verið að þar séu fordómar sem þarf að útrýma?

Þurfum við að gera átak í því að breyta ásýnd hverjir eru frumkvöðlar á Íslandi?

Hugmyndir spretta alls staðar frá, óháð kyni, aldri, menntun, uppruna eða búsetu.

Frumkvöðlar geta verið konur á tiræðisaldri.

Frumkvöðlar geta verið hælisleitendur.

Frumkvöðlar geta verið lesblindir.

Frumkvöðlar geta verið ómenntaðir.

Frumkvöðlar geta verið börn.

Fjölmiðlar hafa stóru hlutverki að gegna í að skapa fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir. Þögn ykkar um öll þessi frábæru verkefni kvenna í nýsköpun er pínleg.


Er hægt að drepa niður frumkvæði?


Einu sinni var lítill strákur sem átti að byrja í skóla. Þetta var lítill strákur og þetta var mjög stór skóli. Hann þurfti að ganga upp margar tröppur og eftir löngum gangi til að komast í kennslustofuna sína. Þegar strákurinn hafði verið í skólanum í nokkra daga sagði kennarinn:
- Í dag megið þið teikna og lita!
- Frábært!, hugsaði strákurinn.
Hann elskaði að teikna og mála ljón, tígrisdýr, kýr, fugla, bíla og báta. Hann tók upp litina sína og byrjaði að teikna. En kennarinn sagði:
- Bíðið aðeins, þið megið ekki byrja strax! Kennarinn beið þangað til allir voru tibúnir að hlusta.
- Við ætlum að teikna blóm! Sagði kennarinn.
- Fínt! hugsaði strákurinn. Honum fannst gaman að teikna blóm og lita þau bleik, appelsínugul og blá. En kennarinn sagði:

- Bíðið! Ég ska sýna ykkur. Og hann teiknaði á töfluna rautt blóm með grænum stilk og grænum blöðum.
- Nú megið þið byrja! Sagði kennarinn. Litli strákurinn horfði á blóm kennarans. Síðan horfði hann á myndina sína og fannst hún miklu fallegri. En hann sagði ekkert. Hann tók bara nýtt blað og byrjaði upp á nýtt og reyndi að herma eftir mynd kennarans. Hann teiknaði rautt blóm með grænum stilk og grænum blöðum.

Nokkrum dögum seinna stakk kennarinn upp á að vinna með leir.
- Frábært! hugsaði litli strákurinn. Hann elskaði að vinna með leir. Hann gat gert fullt af hlutum eins og snigla, snjókarla, slöngur og mýs. Hann byrjaði strax að móta leirinn sinn.
- Bíðið, þið megið ekki byrja strax! Við ætlum að búa til diska! sagði kennarinn.
- Fínt! hugsaði strákurinn. Honum fannst líka gaman að búa til diska. Hann byrjaði á því að forma diska í ýmsum stærðum og hafði þá líka mismunandi í laginu. En kennarinn sagði:
- Bíðið, ég skal sýna ykkur hvernig við gerum! Og hún sýndi krökkunum hvernig diskur átti að líta út.
- Nú megið þið byrja! sagði kennarinn. Litli strákurinn horfði á disk kennarans. Hann horfði á sína diska og fannst þeir miklu flottari. En hann sagði ekkert. Hann tók þá og vöðlaði þeim saman í einn klump og byrjaði aftur og reyndi núna að líkja eftir disk kennarans.
Smátt og smátt lærði strákurinn að bíða, hlusta vel, taka eftir og gera eins og kennarinn sagði honum hvernig hann átti að gera hlutina.

Nokkrum mánuðum seinna þurfti fjölskylda stráksins að flytja á annan stað og þurfti hann að byrja í nýjum skóla. Þessi skóli var ennþá stærri en hinn og strákurinn þurfti að ganga upp fullt af tröppum og ennþá lengri ganga til þess að fara í kennslustofuna sína. Fyrsta daginn í nýja skólanum sagði kennarinn:
- Í dag megið þið teikna og mála!
- Frábært! hugsaði strákurinn og beið eftir fyrirmælum frá kennaranum hvað hann ætti að gera.
En kennarinn sagði ekkert heldur gekk um bekkinn og fylgdist með krökkunum. Hún kom til stráksins og sagði:
- Ætlar þú ekki að teikna eitthvað?
- Jú, sagði strákurinn. Hvað á ég að teikna?
- Það veit ég ekki, sagði kennarinn. Hvað viltu teikna?
- Ég veit ekki, sagði strákurinn.
- Þú mátt teikna það sem þú vilt, sagði kennarinn.
- En hvaða lit á ég að nota? spurði strákurinn.
- Þú mátt nota hvaða liti sem er, sagði kennarinn. Ef allir teiknuðu það sama með sömu litum hvernig ætti ég þá að þekkja myndirnar ykkar í sundur?
- Ég veit ekki, sagði litli strákurinn. Og hann byrjaði að teikna blóm. Blómið var rautt með grænum stilk og grænum blöðum.

(höfundur óþekktur – þýtt úr sænsku af EIS, 2008)


Íslenskt hugvit og orka í 1. sæti!

Íslenskur uppfinningamaður Valdimar Össurarson, sem reyndar er formaður SFH (Samband Frumkvöðla og Hugvitsmanna), hlaut 1. verðlaun fyrir uppfinningu sína í alþjóðlegri samkeppni IFIA sem eru alþjóðasamtök uppfinningamanna (Fourth International Inventor's Day Celebration).

Verðlaunin verða afhent í Stokkhólmi á 125 ára afmælishátíð sænska uppfinningafélagsins (SUF) þ. 5. október n.k.

Valdimar er formaður SFH (Samtök Frumkvöðla og Hugvitsmanna, (www.nyhugmynd.com), sem eru einu samtök frumkvöðla og uppfinningamanna á Íslandi.  Hann er stofnaði á sínum tíma fyrirtækið Valorku ehf utan um uppfinningu sína.

Valorka ehf vinnur að þróun hverfla til virkjunar sjávarfallaorku.  Valorka hverflarnir hafa mikla sérstöðu og virðast henta mjög vel til virkjunar þess straumhraða sem algengur er við strendur og annes víða um heim.  Þeir hafa einnig víðtækara notagildi, t.d. til virkjunar vindorku.  Valorka ehf vinnur einnig að rannsóknum og gagnaöflun varðandi nýtingu sjávarorku. Hluti þess er verkefni sem snýr að rannsóknum sjávarstrauma í röstum við annes Íslands, en þær rannsóknir hafa ekki áður verið gerðar. 

Valorka ehf. vinnur í nánu samstarfi við færustu sérfræðinga og nýtur stuðnings Tækniþróunarsjóðs og Orkusjóðs. Valdimar Össurarson, stofnandi Valorku ehf á hugmyndir að baki hverflunum og einkaleyfi þeim tengd.

Nánari upplýsingar má finna inn á www.valorku.is og um hátíðina á www.suf125.com
Sími Valdimars er 8622345

 valdimar.jpgValdimar Össurarson


Þess má geta að SFH og KVENN (kvenn.net) verða með tvo bása á þessari hátíð sem tengd er Täkniska mässan í Älvsjö og munu 6 íslenskir frumkvöðlar og hugvitsmenn vera með sín verkefni þar, þar á meðal verður Valdimar Össurarson, sem nú hefur skipað sér á bekk með hæfustu frumkvöðlum og uppfinningamönnum hér á landi og þótt víða væri leiðtað. 

Þessi verðlaun, sem nema um ískr. 5.500.000.-  eru í senn mikill heiður fyrir Valdimar og SFH og um leið stórkostleg hvatnig fyrir allra íslenska hugvitsmenn og félagið okkar SFH. 


Nú ættu allir að skrá sig í félagið okkar. Það kostar ekkert og marg borgar sig. (Nyhugmynd.com)

 valorka_2.jpg


Athafnavikan

Að vera athafnamaður er að sjá sem sér viðskiptatækifæri og framkvæmir þau. Andri Heiðar Kristinsson er einn af þeim. Hann stofnaði Innovit ásamt félögum sínum því honum fannst vanta þjónustu fyrir fólk með viðskiptahugmyndir. Innovit er umsjónaraðilar alþjóðlegu athafnavikunnar á Íslandi og má nálgast nánari viðburðardagskrá á heimasíðunni www.athafnavika.is
Andri verður í Frumkvöðlaþætti kvöldsins á ÍNN kl.21 ásamt Sigrúnu Lilju sem stofnaði Gyðju collection. Ekki missa af viðtalinu við þetta frábæra unga athafnafólk. Ef allir hugsuðu eins og þau þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af framtíðarmöguleikum Íslands.

Hagsýn Hugmyndasmiðja

Hugmyndahús Háskólanna var með Hugmyndasmiðju í haust, þar sem fólk vann með hugmyndir sínar í samvinnu við lengra komna frumkvöðla. Meðal annars bauð fyrirtækið Hagsýn upp á sína þjónustu. Það er í eigu  Brynhildar og Svövu og munu þær vera gestir Frumkvöðlaþáttarins í kvöld ásamt forstöðukonu Hugmyndahússins Ingibjörgu Grétarsdóttur.
Hugmyndahúsið stendur á tímamótum núna vegna niðurskurðar og væri það synd fyrir allt skapandi fólk ef það verður ekki starfrækt áfram.
Þátturinn er sýndur í kvöld á ÍNN kl.21 og endursýndur á tveggja tíma fresti til og með kl.17 á morgun 2.nóv.

Demantur Íslands

Kjuregej Alexandra Argunova er demantur frá Jakutiu, sem hefur búið á Íslandi í 44 ár. Hún verður í Frumkvöðlaþætti í kvöld á ÍNN kl.21. Alexandra er ótrúlega skapandi og framkvæmdasöm hugvitskona. Hún á sér marga drauma og einn af þeim er að koma upp menningartengslum á milli Jakútíu og Íslands. Hún hefur ekki setið auðum höndum og er þegar búin að byggja Jakútíu hús í Hvalfirði og er að byggja torfbæ í Jakútíu. Fyrir nokkrum árum fékk hún verðlaun Landsbankans og Reykjavíkurborgar fyrir hugmynd sína um að setja upp skemmtigarð í Reykjavík. Hennar æðsti draumur er að sjá þessi sköpunarverk sín verða að veruleika og til þess þarf hún samstarfsaðila og fjármagn. Hvernig væri að fólk tæki sig saman um að aðstoða þennan demant, sem Alexandra er, áður en hún er öll?cimg4887_1036993.jpg

Melódíur minninganna í Frumkvöðlaþætti.

Tónlistarsafnið á Bíldudal og frumkvöðull þess Jón Kr. Ólafsson verður til umfjöllunar í Frumkvöðlaþættinum á ÍNN kl.21 í kvöld. Þátturinn verður endursýndur á tveggja tíma fresti til og með kl.17 á morgun 21.sept. Missið ekki af náttúrutalentinum að vestan.
Haldin verður tónlistarveisla í FÍH salnum til heiðurs Jóns Kr. vegna 70 ára afmælis hans. Hátíðin byrjar kl.20 laugardaginn 25.sept. og munu m.a. skemmta Raggi Bjarna, Kristján Jóhannsson, Léttsveit Jóhönnu Þórhalls og Jón mun syngja með Fjallabræðrum. Ekki missa af þessari einstöku skemmtun og styðja í leiðinni þetta frumkvöðlastarf hans Jóns á Bíldudal. Aðgangur er 2000 kr og tekið verður við frjálsum fjárframlögum til safnsins. Allir velkomnir.

Er dans gleðigjafi?

Nýtt æði er í uppsiglingu á Íslandi. Það er ZUMBA. Jóhann Örn danskennari og Thea konan hans fræða okkur um Zumba og línudansinn en Jói var einmitt frumkvöðull línudansins á Íslandi. Ekki missa af viðtalinu við þau hjónin í Frumkvöðlaþættinum á ÍNN í kvöld 30.ágúst kl.21. Þátturinn er endursýndur á tveggja tíma fresti til og með kl.17 á morgun.
Þeir sem vilja prófa ZUMBA eru hvattir til að mæta í Valsheimilið 31.ágúst kl.18
Hleypum gleði inn í líf okkar og mætum í dans. Lífið er stutt!Njótum þess!

Rykfallnar vídeó spólur!

Frumkvöðlaþáttur í kvöld, 23.ágúst á ÍNN kl.21. Sigurður og Eysteinn frá Gagnvirkni eru gestir þáttarins. Hvað er Gagnvirkni? Missið ekki af þeim. Þátturinn er endursýndur á tveggja tíma fresti til og með kl.17 á morgun

Er hægt að klekja út hugmyndum?

Klak viðskiptasmiðja verður kynnt í Frumkvöðlaþættinum í kvöld. María Þorgeirsdóttir, starfskona Klaks og Gísli Kristjánsson frumkvöðull og fyrrum nemandi í Klaki eru viðmælendur mínir í kvöld. Ekki missa af þeim kl.21 á ÍNN. Þátturinn er endursýndur á tveggjatíma fresti til og með kl.17 á morgun 10.ágúst
Nýtt starfsár er að hefjast hjá Klaki og er hægt að sækja um pláss til og með 16.ágústs. Upplýsingar á www.klak.is

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband