Er hægt að drepa niður frumkvæði?


Einu sinni var lítill strákur sem átti að byrja í skóla. Þetta var lítill strákur og þetta var mjög stór skóli. Hann þurfti að ganga upp margar tröppur og eftir löngum gangi til að komast í kennslustofuna sína. Þegar strákurinn hafði verið í skólanum í nokkra daga sagði kennarinn:
- Í dag megið þið teikna og lita!
- Frábært!, hugsaði strákurinn.
Hann elskaði að teikna og mála ljón, tígrisdýr, kýr, fugla, bíla og báta. Hann tók upp litina sína og byrjaði að teikna. En kennarinn sagði:
- Bíðið aðeins, þið megið ekki byrja strax! Kennarinn beið þangað til allir voru tibúnir að hlusta.
- Við ætlum að teikna blóm! Sagði kennarinn.
- Fínt! hugsaði strákurinn. Honum fannst gaman að teikna blóm og lita þau bleik, appelsínugul og blá. En kennarinn sagði:

- Bíðið! Ég ska sýna ykkur. Og hann teiknaði á töfluna rautt blóm með grænum stilk og grænum blöðum.
- Nú megið þið byrja! Sagði kennarinn. Litli strákurinn horfði á blóm kennarans. Síðan horfði hann á myndina sína og fannst hún miklu fallegri. En hann sagði ekkert. Hann tók bara nýtt blað og byrjaði upp á nýtt og reyndi að herma eftir mynd kennarans. Hann teiknaði rautt blóm með grænum stilk og grænum blöðum.

Nokkrum dögum seinna stakk kennarinn upp á að vinna með leir.
- Frábært! hugsaði litli strákurinn. Hann elskaði að vinna með leir. Hann gat gert fullt af hlutum eins og snigla, snjókarla, slöngur og mýs. Hann byrjaði strax að móta leirinn sinn.
- Bíðið, þið megið ekki byrja strax! Við ætlum að búa til diska! sagði kennarinn.
- Fínt! hugsaði strákurinn. Honum fannst líka gaman að búa til diska. Hann byrjaði á því að forma diska í ýmsum stærðum og hafði þá líka mismunandi í laginu. En kennarinn sagði:
- Bíðið, ég skal sýna ykkur hvernig við gerum! Og hún sýndi krökkunum hvernig diskur átti að líta út.
- Nú megið þið byrja! sagði kennarinn. Litli strákurinn horfði á disk kennarans. Hann horfði á sína diska og fannst þeir miklu flottari. En hann sagði ekkert. Hann tók þá og vöðlaði þeim saman í einn klump og byrjaði aftur og reyndi núna að líkja eftir disk kennarans.
Smátt og smátt lærði strákurinn að bíða, hlusta vel, taka eftir og gera eins og kennarinn sagði honum hvernig hann átti að gera hlutina.

Nokkrum mánuðum seinna þurfti fjölskylda stráksins að flytja á annan stað og þurfti hann að byrja í nýjum skóla. Þessi skóli var ennþá stærri en hinn og strákurinn þurfti að ganga upp fullt af tröppum og ennþá lengri ganga til þess að fara í kennslustofuna sína. Fyrsta daginn í nýja skólanum sagði kennarinn:
- Í dag megið þið teikna og mála!
- Frábært! hugsaði strákurinn og beið eftir fyrirmælum frá kennaranum hvað hann ætti að gera.
En kennarinn sagði ekkert heldur gekk um bekkinn og fylgdist með krökkunum. Hún kom til stráksins og sagði:
- Ætlar þú ekki að teikna eitthvað?
- Jú, sagði strákurinn. Hvað á ég að teikna?
- Það veit ég ekki, sagði kennarinn. Hvað viltu teikna?
- Ég veit ekki, sagði strákurinn.
- Þú mátt teikna það sem þú vilt, sagði kennarinn.
- En hvaða lit á ég að nota? spurði strákurinn.
- Þú mátt nota hvaða liti sem er, sagði kennarinn. Ef allir teiknuðu það sama með sömu litum hvernig ætti ég þá að þekkja myndirnar ykkar í sundur?
- Ég veit ekki, sagði litli strákurinn. Og hann byrjaði að teikna blóm. Blómið var rautt með grænum stilk og grænum blöðum.

(höfundur óþekktur – þýtt úr sænsku af EIS, 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband