Færsluflokkur: Bloggar

Al Gore getur tekið sér frí.

Jörðin leitast við að vera í jafnvægi. Þetta eldgos leiðir til þess að við þurfum ekki að hafa svo miklar áhyggjur af hlýnun jarðar.
Ég er hrædd um að svipað gos (náttúruhamfarir) og var í St. Helen í USA sé í uppsiglingu.

mbl.is Eldgos færist í aukana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er snillingur!

Ég hef verið að velta fyrir mér hvaðan fólkið á að koma sem mun búa í tilvonandi "vinnings blokkum" á flugvallarsvæðinu. Það rann upp fyrir mér ljós !
Það þarf ekkert lengur að deila um hvort flugvöllurinn á að vera eða fara. Við flýtum okkur bara að byggja blokkirnar svo að restin af landsbyggðarfólkinu geti flutt þangað. Þá þarf ekki lengur innanlandsflugvöll! Málið dautt!

Hugmyndir að bættri miðborg Reykjavíkur

Fann eftirfarandi í skjalasafninu mínu:

Hugmyndir að bættri miðborg Reykjavíkur.


1. Stöðumælagjald. Breyta því þannig að fyrsti klukkutíminn verður frír. Ef fólk ætlar að skjótast í banka eða eina búð þá fer það frekar í Kringluna eða Smáralind þar sem það fær frítt bílastæði. Miðbærinn missir þarna viðskiptavini.

2. Húsið sem hýsti Topshop (þar sem Nýja bíó var). Þar væri hægt að bjóða listamönnum og handverksfólki vinnuaðstöðu og hafa opið fyrir gesti, þannig að fólk getur farið og verslað beint við hönnuðina og fylgst með vinnu þeirra.  Það mætti hugsa sér veitingastað á einni hæðinni þar sem hugmyndaríkir matgæðingar bjóða framleiðslu sína til sölu. Þetta verður lifandi eldhús, fólk á öllum aldri getur sótt um að fá aðstöðu til baksturs (matargerðar) eða komið með tilbúna rétti og selt þeim sem eiga leið um þetta lifandi hönnunarhús, en vilja setjast niður og fá sér að borða.

3. Uppgötvunarhús tengt Háskóla Íslands. Það vantar að tengja Háskólann við umhverfi sitt og fólkið.  Mér datt í hug hvort það væri ekki hægt með svokallaðri uppgötvunaraðferð. T.d. að lofa fólki á öllum aldri að skoða í smásjár t.d. sýni úr Tjörninni. Skoða þunnsneið af íslensku grjóti í smásjá. Við það opnast nýr heimur! Gera tilraunir með seglum o.fl. o.fl.. Það er hægt að gera þetta á marga vegu. Kynna náttúruvísindin (jarðfr., lífr.,eðlisfr., efnafr, stjörnufr., verkfr.,m.a.) fyrir fólki á öllum aldri og gera það meðvitaðra um umhverfi sitt.

4. Hljómskálgarður –Tjörnin. Væri hægt að koma þar upp aðstöðu í litlum húsum fyrir handverksfólk og veitingasölu sem nýttist allan ársins hring. Myndi breytast í lítið jólaþorp í desember. Á sumrin væri leikaðstaða fyrir börnin t.d. grunn laug til að busla í (því tjörnin er of skítug!) og skjólveggir (færanlegir) til að skýla fyrir norðanáttinni. Lítil skemmtilest gæti ekið um garðinn og kringum Tjörnina.

Það mætti einnig koma upp danspalli  í Hljómskálagarðinum þar sem dansað er á sumarkvöldum til miðnættis. Þetta er hugsað sem  fjölskylduskemmtun og er hægt að vera með létta danskennslu t.d. í línudansi þar sem allir geta tekið þátt. Einnig er hægt að hugsa sér að þarna geti fólk á öllum aldri  æft sig í að koma fram og skemmta öðrum með söng, leik og dansi, jafnt að degi sem kvöldi.

Reykjavík 30.jan.2004,   Elinóra Inga Sigurðardóttir


Hvernig drepa má frumkvæði og sköpun!


Einu sinni var lítill strákur sem átti að byrja í skóla. Þetta var lítill strákur og þetta var mjög stór skóli. Hann þurfti að ganga upp margar tröppur og eftir löngum gangi til að komast í kennslustofuna sína. Þegar strákurinn hafði verið í skólanum í nokkra daga sagði kennarinn:
- Í dag megið þið teikna og lita!
- Frábært!, hugsaði strákurinn.
Hann elskaði að teikna og mála ljón, tígrisdýr, kýr, fugla, bíla og báta. Hann tók upp litina sína og byrjaði að teikna. En kennarinn sagði:
- Bíðið aðeins, þið megið ekki byrja strax! Kennarinn beið þangað til allir voru tibúnir að hlusta.
- Við ætlum að teikna blóm! Sagði kennarinn.
- Fínt! hugsaði strákurinn. Honum fannst gaman að teikna blóm og lita þau bleik, appelsínugul og blá. En kennarinn sagði:

- Bíðið! Ég ska sýna ykkur. Og hann teiknaði á töfluna rautt blóm með grænum stilk og grænum blöðum.
- Nú megið þið byrja! Sagði kennarinn. Litli strákurinn horfði á blóm kennarans. Síðan horfði hann á myndina sína og fannst hún miklu fallegri. En hann sagði ekkert. Hann tók bara nýtt blað og byrjaði upp á nýtt og reyndi að herma eftir mynd kennarans. Hann teiknaði rautt blóm með grænum stilk og grænum blöðum.

Nokkrum dögum seinna stakk kennarinn upp á að vinna með leir.
- Frábært! hugsaði litli strákurinn. Hann elskaði að vinna með leir. Hann gat gert fullt af hlutum eins og snigla, snjókarla, slöngur og mýs. Hann byrjaði strax að móta leirinn sinn.
- Bíðið, þið megið ekki byrja strax! Við ætlum að búa til diska! sagði kennarinn.
- Fínt! hugsaði strákurinn. Honum fannst líka gaman að búa til diska. Hann byrjaði á því að forma diska í ýmsum stærðum og hafði þá líka mismunandi í laginu. En kennarinn sagði:
- Bíðið, ég skal sýna ykkur hvernig við gerum! Og hún sýndi krökkunum hvernig diskur átti að líta út.
- Nú megið þið byrja! sagði kennarinn. Litli strákurinn horfði á disk kennarans. Hann horfði á sína diska og fannst þeir miklu flottari. En hann sagði ekkert. Hann tók þá og vöðlaði þeim saman í einn klump og byrjaði aftur og reyndi núna að líkja eftir disk kennarans.
Smátt og smátt lærði strákurinn að bíða, hlusta vel, taka eftir og gera eins og kennarinn sagði honum hvernig hann átti að gera hlutina.

Nokkrum mánuðum seinna þurfti fjölskylda stráksins að flytja á annan stað og þurfti hann að byrja í nýjum skóla. Þessi skóli var ennþá stærri en hinn og strákurinn þurfti að ganga upp fullt af tröppum og ennþá lengri ganga til þess að fara í kennslustofuna sína. Fyrsta daginn í nýja skólanum sagði kennarinn:
- Í dag megið þið teikna og mála!
- Frábært! hugsaði strákurinn og beið eftir fyrirmælum frá kennaranum hvað hann ætti að gera.
En kennarinn sagði ekkert heldur gekk um bekkinn og fylgdist með krökkunum. Hún kom til stráksins og sagði:
- Ætlar þú ekki að teikna eitthvað?
- Jú, sagði strákurinn. Hvað á ég að teikna?
- Það veit ég ekki, sagði kennarinn. Hvað viltu teikna?
- Ég veit ekki, sagði strákurinn.
- Þú mátt teikna það sem þú vilt, sagði kennarinn.
- En hvaða lit á ég að nota? spurði strákurinn.
- Þú mátt nota hvaða liti sem er, sagði kennarinn. Ef allir teiknuðu það sama með sömu litum hvernig ætti ég þá að þekkja myndirnar ykkar í sundur?
- Ég veit ekki, sagði litli strákurinn. Og hann byrjaði að teikna blóm. Blómið var rautt með grænum stilk og grænum blöðum.

(höfundur óþekktur – þýtt úr sænsku af EIS, 2008)


Veiði dagsins?

Hvenær ætlum við að taka hausinn úr sandinum (í þessu tilviki SJÓNUM)? Hefur einhvern tíman verið hægt að sortera upp úr sjónum án þess að henda einhverju? Ég held að það eigi að endurskoða þetta veiðikerfi. Hvernig eiga aumingja fiskarnir að vita að í dag viljum við bara 40 cm þorsk  til dæmis. Hinir, sem ekki eru af réttri stærð eða tegund og sem eru svo óheppnir að villast í netið fá ekki að vera með. Af hverju er ekki komið með afla dagsins í land og allt notað upp í skít (eins og kerlingin sagði)!
mbl.is Segir brottkast að aukast gífurlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til umhugsunar!

Dag einn bað kennari nemendur sína að skrifa nöfn bekkjarfélaganna á blað. Þeir áttu að skrifa eitt nafn í hverja línu og hafa auða línu á milli. Síðan bað hún nemendur sína að hugsa um það besta um hvern og einn og skrifa það fyrir neðan nafnið. Þegar nemendur fóru úr tíma skiluðu þau blöðunum til kennarans sem fór með þetta heim og bjó til lista yfir hvern nemanda og safnaði saman því sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað.
Síðan fengu nemendurnir þetta í hendurnar daginn eftir. Þegar þeir lásu þetta urðu þeir hissa á öllu því jákvæða sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að þeir skiptu svona miklu máli. Kennarinn vissi ekki hve mikið nemendurnir ræddu þetta sín á milli eða við foreldrana en þetta hafði tilætlaðan árangur. Nemendurnir urðu ánægðari með sig og aðra í bekknum, þeim leið betur.

Lífið hélt áfram.

Mörgum árum seinna lést einn nemendanna sem hét Magnús og kennarinn ákvað að vera viðstaddur jarðarförina. Einn vinur hins látna gekk til hennar og spurði hvort hún hefði verið kennarinn hans og sagði að Magnús hefði talað mikið um hana. Foreldrar hins látna komu einnig til hennar og vildu sýna henni svolítið. Þau höfðu fundið samanbrotið blað í veski Magnúsar og var það listinn með öllu jákvæðu atriðunum frá bekkjarfélögunum sem kennarinn hafði fengið honum fyrir mörgum árum. “Þakka þér fyrir að gera þetta, því eins og þú sérð þá skipti þetta hann miklu máli” sagði móðir Magnúsar. Fyrrum bekkjarfélagar tóku undir það og sögðu að þessi listi hefði fylgt þeim öllum gegnum lífið og skipt þá mjög miklu máli. Þetta var eitt af því sem þeim þótti vænst um.
Þegar gamli kennarinn heyrði þetta settist hún niður og grét, bæði syrgði hún Magnús og svo var hún hrærð yfir því að hafa snert nemendur sína með þessu uppátæki.

Flest okkar hegðum við okkur þannig eins og að við höfum gleymt því að lífið endar einn góðan veðurdag. Enginn okkar veit hvenær sá dagur verður. Þess vegna bið ég þig að segja við þá sem þér þykir vænt um hvað þeir séu þér mikilvægir og eigi sérstakan stað í hjarta þér. Gerðu það oft áður en það verður of seint.


Global warming!

Hvenær ætla íslenskir borgarskipuleggjendur að vakna til lífsins og hætta að skipuleggja meiri byggð á uppfyllingum meðfram ströndinni? Við verðum að sætta okkur við að sjávarborð er að hækka og það þarf að taka tillit til þess í öllu borgarskipulagi.
mbl.is Eiðisgrandi lokaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggð á uppfyllingum!!

Hvernig er það er ekki alltaf verið að auka skipulagða byggð á uppfyllingum á höfuðborgarsvæðinu? Ætli skipulagsfræðingar fylgist ekkert með fréttum? Um daginn þá rofnaði varnargarðurinn á Eiðisgranda og eyðilagði m.a. göngustíginn þar. Sjávaröflin eru sterk! Hvernig ætli það verði að búa í nýja uppfyllingarhverfinu sem á að rísa út á Granda? Woundering
mbl.is Hækkandi sjávarborð ógnar sögufrægum byggingum í Bergen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræðsluskylda eða skólaskylda?

Ein af ályktunum Sjálfstæðisflokksins eftir síðasta Landsfund var á þá leið að fræðsluskylda kæmi í stað skólaskyldu. Þetta sé ég sem mikið tækifæri í átt til breytinga. Hugsið ykkur þá geta krakkar ráðið því hvort þau mæti í skóla eða læri heima hjá sér með sínum hraða. Ég sé fyrir mér að kennslan fari fram á Netinu fyrir þá sem þess óskar. Börnin geta lært eftir sínum hraða og áhuga. Þau geta valið sér kennara og námsefni. Búseta skiptir þarna engu máli. Hægt verður að sníða nám/fræðslu eftir einstaklingi. Öll erum við einstök og höfum hæfileika á misjöfnum sviðum. Sumir eru hópsálir aðrir einfarar. Ef við hugsum menntakerfið upp á nýtt með því að koma fræðslu út úr kennslustofunni þá stígum við skref inní framtíðina. Það þrífast ekki allir í þessum ramma sem kennslustofan er. Gott dæmi er þessi aumingja drengur sem drap skólafélaga sína í Virgina Tech. Oft erum við að búa til vandmál þegar allir eru settir inní sama box, undir sömu kröfur, vitandi það að við erum misjöfn með mismunandi þarfir og hæfileika. Útkoman getur aldrei verið góð.
Þess vegna er komin tími til að hugsa út fyrir boxið, nota nútíma tækni sem Internetið er og gefa skólaskylduna upp á bátinn. Þetta myndi verða mikill léttir fyrir mörg heimili t.d. þarf ekki að argast í krökkunum að vakna fyrir allar aldir. Þetta yrði mikill léttir fyrir kennara t.d. að losna við ólátabelgina sem hafa aldrei passað inní kennslustofuna, fyrir utan hversu miklu skemmtilegri kennsla það yrði fyrir kennara að fá að losna undan uppeldishlutverkinu sem þeir eru komnir í, í kennslustofunni. Þetta yrði líka mikill léttir fyrir marga krakka því þeim líður illa í stórum hóp, vinna best í einrúmi eða með fáum. Svo má ekki heldur gleyma því að sumum hentar einfaldlega ekki að vakna fyrr en undir hádegi og vinna best á kvöldin og á nóttunni. Og trúið mér, það eldist ekki af fólki!
Þannig að innleiða fræðsluskyldu í stað skólaskyldu í verki myndi hafa gífurlega jákvæð áhrif á einstaklinginn og allt samfélagið þegar upp er staðið.


Virkjum hugvitið, þjóðinni til heilla í atvinnusköpun!


Sprotaþing var haldið nýlega, þar sem saman voru komnir fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum, frumkvöðlar og fulltrúar ýmissa stofnana. Þingið heppnaðist mjög vel og geta frumkvöðlar horft fram á betri tíma ef allar tillögur sem lagðar voru þarna fram ná fram að ganga.

Á sér stað mismunun á skapandi einstaklingum ?
Hefur það áhrif á nýsköpun?
Er hægt að virkja hugvitið meira?


Ég get svarað þessum spurningum öllum játandi.
Ég er að tala um skapandi einstaklinga á öllum sviðum.
Það á sér stað mismunun milli stétta skapandi fólks.
Listamaður, tónlistarmaður og rithöfundar geta sótt um listamannalaun. Þeir eru ekki beðnir um að gera viðskiptaáætlun eða sækja námskeið í markaðssetningu, þar eru verkin látin tala.
Aftur á móti einstaklingur sem er skapandi á tæknisviði, sem oftast er kallaður uppfinningamaður, er krafinn um viðskiptaáætlun og jafnvel einkaleyfi ef hann leitar eftir stuðningi. Frumgerðin ein og sér nægir ekki.
Uppfinningamaður er  sá sem finnur upp ný tæki, nýjar aðferðir eða nýja þjónustu. Ef hann hrindir hugmyndinni í framkvæmd er hann orðinn frumkvöðull þ.e. hann byrjar á einhverju nýju.
Það á sér stað mismunun eftir kyni.
Konur fá frekar styrki en karlar, en upphæðin er minni.
Það á sér stað mismunun eftir búsetu.
Landsbyggðarfólk fær frekar styrki en höfuðborgarbúar.

Það á sér stað mismunun eftir aldri.
Þrátt fyrir hugmyndaauðgi grunnskólanema eins og sést hefur á Nýsköpunarkeppni þeirra þá eru engar hugmyndanna sem hafa komist í framleiðslu. Ég er ekki viss um að ellilífeyrisþegi fengi heldur miklar undirtektir við hugmynd sína í núverandi stuðningskerfi.
Það á sér stað mismunun eftir tegund hugmyndar.
Hugmyndir sem tengist líftækni, hátækni, fatahönnun eða húsgagnahönnun eiga meiri möguleika á styrkjum en ný einföld vara tengd fiskvinnslu. Sumar hugmyndir eru einfaldlega “INNI”
Það á sér mismunun eftir menntunarstigi skapandi einstaklinga.
Það eru margar skýrslur sem sýna að hugmyndaauðgi er meiri hjá þeim sem hafa átt erfitt í grunnskóla, sem segir okkur það að þeir fara síður í háskóla, samt er frekar stutt við hugmyndir úr háskóla en þær sem fæðast hjá hinum almenna borgara.

Mismunun hefur áhrif á nýsköpun að því leyti að færri hugmyndir komast upp á yfirborðið og í framkvæmd. Fólki er gert erfitt fyrir með því að setja hugmyndir eða sköpun í fyrirfram ákveðin hólf.

Til þess að breyta þessu þá legg ég til eftirfarandi:
1) Það þarf að gefa kost á frumkvöðlalaunum eins og listamannalaunum. Það hefur enginn efni á því að hætta að vinna fyrir hinu daglega brauði og snúa sér að nýsköpun. Hingað til hefur það aðeins leitt til gjaldþrots því það tekur langan tíma að koma nýrri vöru á markað.
2) Það þarf að byrja á því að skipta um kennsluaðferð í grunnskóla og innleiða svokallað uppgötvunarnám og þarfagreiningu. Herdís Egilsdóttir fyrrverandi kennari í Ísaksskóla notaði þessa aðferð með mjög góðum árangri. Þannig náum við að ýta undir sköpunarkraftinn og frumkvæði hjá börnum, sem þau búa að ævilangt.
3) Það þarf að koma á tengslum milli skapandi einstaklinga og athafnamanna, því sköpunargáfa og viðskiptavit fer ekki alltaf saman.
4) Það þarf að eyða þessari mismunun og auðvelda fólki að koma hugmyndum sínum á framfæri t.d. með ráðgjöf frá fólki með reynslu eins og t.d. Landssambandi hugvitsmanna.

Góðir blogglesendur  ég hef reynt að sýna fram á, að það á sér stað mikil mismunun í nýsköpunarumhverfi okkar, milli stétta, milli landshluta, milli kynja, milli aldurshópa og á milli hugmyndategundar.
Í stjórnmálaályktunum Sjálfstæðisflokksins stendur meðal annars að það eigi að vera tækifæri fyrir alla og að skapa þarf vaxtarskilyrði fyrir frjóa hugsun  þar sem sköpunarkraftur og frumkvæði og virkjun ólíkra hæfileika fái notið sín.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að standa við þessi orð þá þarf að taka til hendinni því núverandi ástand er óviðunandi.
Virkjum hugvitið, þjóðinni til heilla í atvinnusköpun.




Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband